Barðastrandalína er spennulaus sökum ísingar og eru íbúar á Barðaströnd því án rafmagns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarðar.
Þar kemur einnig fram að loftlína í Tálknafirði sé brotin. Jarðstrengur sér langflestum fyrir rafmagni, en nokkur hús eru án rafmagns eða keyra á varaafli. Rafmagnslaust er í hluta af sveitum Önundarfjarðar, Dýrafirði utan Gemlufalls, í vestanverðu Ísafjarðardjúpi og í Árneshreppi.
Starfsmenn Orkubúsins fylgjast vel með veðri og færð og verður farið í viðgerðir um leið og gefur.
