Innlent

Erlent flutningaskip kyrrsett á Grundartanga

Randver Kári Randversson skrifar
Frá Grundartanga.
Frá Grundartanga. Vísir/GVA
Erlent flutningaskip hefur verið kyrrsett á Grundartanga frá því mánudaginn 7. júlí. Skipið kom þá með kolafarm frá New Orleans í Bandaríkjunum, en var kyrrsett að kröfu Samgöngustofu, vegna vangoldinna gjalda og launa til skipverja. Frá þessu er sagt á vef Skessuhorns.

Skipið heitir Jana og er frá sömu útgerð og skip sem kyrrsett var fyrir um mánuði í Reyðarfjarðarhöfn vegna vangoldinna launa til áhafnarinnar. Ellefu skipverjar eru um borð í Jana og hafa þeir ekki fengið greidd laun í tvo mánuði.

Jónas Garðarsson gætir hagsmuna skipverja sem eftirlitsfulltrúi Alþjóðaflutningasambandsins, ITF. Í samtali við Skessuhorn segist hann ekki vera bjartsýnn á að nema hluti launa skipverja fáist greiddur. Vonir standi til að kyrrsetningu skipsins verði aflétt í þessari viku en óvíst sé að það gangi eftir. Ómögulegt sé að spá um framhald málsins og hve lengi Jana verði við Grundartanga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×