Innlent

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu gengið stóráfallalaust

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ekkert ferðaveður er næsta sólarhringinn vegna veðurs.
Ekkert ferðaveður er næsta sólarhringinn vegna veðurs. Vísir/Pjetur
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu hefur verið þung og gengið hægt núna í eftirmiðdaginn samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Hún hefur þó gengið stóráfallalaust fyrir sig.

Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að ekkert ferðaveður verði á landinu í kvöld og nótt þegar stormur gengur yfir landið.

Þá kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni  að hvasst sé orðið á fjallvegum suðvestanlands, svo sem á Hellisheiði, í Þrengslum og á Mosfellsheiði. Þar er takmarkað skyggni vegna snjókomu og skafrennings.

Veðurhorfur eru slæmar um allt land næsta sólarhringinn en búast má við vaxandi suðaustanátt og með snjókomu eða slyddu síðdegis, fyrst suðvestan til. Suðaustan 20-28 metrar á sekúndu sunnan- og vestan til í kvöld.

Suðaustan 20-28 norðan- og austantil í nótt, en snýst í mun hægari suðvestan átt sunnan- og vestan til. Slydda eða snjókoma í nótt, en mikil slydda eða rigning suðaustanlands.

Suðvestan 8-15 metrar á sekúndu um hádegi á morgun og él, en léttir til norðaustanlands. Heldur hægari síðdegis, en hvessir ört norðvestan til með snjókomu. Dregur úr frosti í dag og hlánar víða við ströndina í kvöld og nótt, en kólnar heldur á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×