Fótbolti

Albert Guðmundsson með sex mínútna súper sýningu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson fagnar hér einu marka sinna.
Albert Guðmundsson fagnar hér einu marka sinna. Mynd/Heimasíða Heerenveen
Albert Guðmundsson skoraði þrennu og fiskaði eitt víti að auki þegar unglingalið Heerenveen vann sinn þriðja leik í röð á laugardaginn. Heerenveen vann þá 5-1 sigur á Brabant United.

Staðan í leiknum var 2-1 þegar Albert tók yfir um miðjan seinni hálfleikinn en hann skoraði þá þrjú mörk á aðeins sex mínútna kafla. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Albert skoraði mörkin sín á 70., 71. og 76. mínútu en þriðja markið hans var augnakonfekt þar sem hann lék á varnarmenn og markmanninn áður en hann renndi boltanum í tómt markið.

Heerenveen komst í 1-0 í fyrri hálfleik en Brabant United jafnaði metin úr vítaspyrnu á 64. mínútu. Heerenveen komst aftur yfir þremur mínútum síðar þegar Albert fiskaði víti sem félagi hans nýtti.

Í leiknum á undan þá lagði Albert upp eina mark leiksins í sigri Heerenveen á Sparta A1 en þetta eru tveir fyrstu leikir hans eftir að hann meiddist á ökkla.

Albert og félagar fá alvöru verkefni um næstu helgi þegar liðið mætir Ajax. Albert ætti líka vera farinn að nálgast aðallið Heerenveen haldi hann áfram á þessari braut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×