Enski boltinn

Stjóri Gylfa: Ekkert vandamál að spila tvo leiki á fjórum dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wilfried Bony og Gylfi Þór Sigurðsson fagna marki um síðustu helgi.
Wilfried Bony og Gylfi Þór Sigurðsson fagna marki um síðustu helgi. Vísir/Getty
Gary Monk, knattspyrnustjóri velska félagsins Swansea City, hefur engar sérstakar áhyggjur af því að liðið hans þurfi að spila tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni á aðeins fjórum dögum.

Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp mark Swansea í 1-1 jafntefli á móti Crystal Palace á laugardaginn en annað kvöld fær liðið Queens Park Rangers í heimsókn.

„Þetta er ekkert vandamál og leikmennirnir mínir eru vanir þessu," sagði Gary Monk á blaðamannafundi fyrir leikinn.

Það eru enginn meiðsli hjá liði Swansea City fyrir leikinn á morgun en Gylfi Þór Sigurðsson spilaði 90 mínútur um helgina og virðist alveg orðinn góður af meiðslunum sem voru að angra hann í upphafi mánaðarins.

Nathan Dyer er leikfær og gæti spilað leikinn annað kvöld en hann og Gylfi Þór hafa náð mjög vel saman á þessu tímabili og er íslenski miðjumaðurinn duglegur að stinga boltann á þennan eldfljóta kantmann.

Wilfried Bony kom Swansea í 1-0 eftir sendingu Gylfa á 15. mínútu um helgina en Crystal Palace jafnaði úr vítaspyrnu tíu mínútum síðar og þannig urðu lokatölurnar.

Swansea City er í 8. sæti deildarinnar nú tveimur stigum á eftir Manchester United sem situr í fjórða og síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×