Greenpeace segir að stuðningur við samtökin og baráttu þeirra fyrir því að verja Norðurslóðir gegn áhættusömum olíuborunum hafi stóraukist meðan 30 liðsmenn þeirra sátu í rússnesku fangelsi vegna mótmælaaðgerða gegn rússneska olíufélaginu Gazprom en olíuvinnsla þess í Barentshafi hófst skömmu fyrir jól.

„Andstöðu milljóna manna gegn ábyrgðarlausum olíuborunum er ekki hægt að hunsa. Það er óskiljanlegt að nú eigi að þrýsta á bensíngjöfina við Austur-Grænland. Þetta er hrikalegasta svæði í heimi til að bora á og áhættan á slysi er mjög mikil,“ segir Jon Burgwald, talsmaður Greenpeace. „Hafsvæðið er fullt af ísjökum þar sem gefast nánast engir íslausir dagar til að bora. Þegar slysið gerist er hætta á að olían fossi út mánuðum saman áður en tekst að stöðva útbreiðslu lekans, " segir Burgwald.