Fótbolti

Ajax og Dinamo Zagreb deila um efnilegan Serba

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Muric í leik með U-17 ára landsliði Króatíu
Muric í leik með U-17 ára landsliði Króatíu vísir/afp
Hollenska knattspyrnustórveldið Ajax tilkynnti í síðustu viku að liðið hefði samið við Robert Muric, 18 ára gamlan króatískan kantmann frá Dinamo Zagreb.

Ajax segir Muric hafa gert fjögurra ára samning við liðið en forráðamenn Dinamo eru ekki á eitt sáttir og vilja meina að leikmaðurinn sé samningsbundinn króatíska félaginu.

„Þeir eru að reyna að láta Robert yfirgefa Dinamo á frjálsri sölu og eru að ógna ferli hans,“ sagði Zdravko Mamic forseti Dinamo Zagreb.

„Félagið er þekkt fyrir að hjálpa leikmönnum að komast til góðra liða og Robert gæti gert það því hann er mjög hæfileikaríkur,“ sagði Mamic og vísaði þar til að Luka Modric, Alen Halilovic, Dejan Lovren og Vedran Corluka ólu allir manninn hjá Dinamo áður en þeir voru seldir til öflugra félaga í Evrópu.

„Samningur hans rennur út 15. júní en í honum segir að hann sé skuldbundinn að skrifa undir nýjan samning sem gildir til ársins 2019,“ sagði Mamic en sagði svo síðar að samningur Muric við Dynamo renni út næsta sumar.

„Það er ótrúlegt hvað þeir eru að gera við strákinn. Mamic hefur boðað okkur á fund en ég vil aldrei fara aftur inn á skrifstofu hans. Ekki eftir það sem á undan er gengið. Við getum bara beðið og verið þolinmóðir,“ sagði Branko Muric faðir Robert.

Forráðamenn Dinamo vilja meina að Robert hafi samið við Ajax þegar hann er samningsbundinn félaginu og æfði hann því ekki með liðinu síðustu mánuði tímabilsins og hefur ekki keppt í næstum heilt ár.

Samningsmál leikmannsins unga verða ekki leyst nema fyrir dómsstólum sem munu taka mál hans fyrir á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×