Fótbolti

Dómaramistök skyggja á sigur Nígeríu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Boltinn syngur í neti Bosníu
Boltinn syngur í neti Bosníu vísir/afp
Nígería lagði Bosníu 1-0 í F-riðli heimsmeistarakeppninnar í fótbolta í Brasilíu. Sigurmarkið var skorað skömmu eftir að löglegt mark var dæmt af Bosníu.

Edin Dzeko kom boltanum í netið hjá Nígeríu á 21. mínútu en var ranglega dæmdur rangstæður og því stóð markið ekki.

Átta mínútum síðar skoraði Peter Odemwingie sigurmarkið eftir undirbúning Emmanuel Emenike en Emenike braut greinilega á Emir Spahic í undirbúningnum en ekkert var dæmt og því stóð markið.

Fyrir utan þessi mistök dómaratríósins var leikurinn hraður, opinn og skemmtilegur.

Bæði lið léku sóknarknattspyrnu og hefðu mörkin hæglega getað orðið fleiri í leiknum. Dzeko fékk úrvals færi í uppbótartíma til að jafna metin og halda vonum Bosníu á lífi en þetta var ekki kvöldið hans og því hampaði Nígería stigunum þremur.

Varnarleikur Bosníu var allt annað en góður og verður liðið að teljast heppið að hafa aðeins fengið eitt mark á sig.

Argentína er efst í riðlinum með sex stig og komið áfram en Nígería er með 4 stig. Bosnía er úr leik án stiga en Íran á enn möguleika á að komast áfram vinni liðið Bosníu í loka umferðinni og tapi Nígería fyrir Argentínu á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×