Innlent

Fjöldaárekstur á Stórhöfða: Tuttugu sekúndum frá stórslysi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Böddi
Starfsmaður verktakafyrirtækis slapp naumlega þegar stór vörubíll ók á bíl hans og eyðilagði eftir að hafa áður ekið á fjóra mannlausa bíla sem stóðu á bílasölu í grenndinni. Einn þeirra fór afar illa út úr árekstrinum.

Árekstrarnir urðu á Stórhöfða skammt frá Gullinbrú á tíunda tímanum í morgun. Vilmundur Geir Guðmundsson varð vitni að atvikinu en aðeins munaði nokkrum sekúndum að hann yrði fyrir vörubílnum.

„Það kom vörubíll upp að Gullinbrúnni í átt að Stórhöfðanum. Tekur svo beygjuna inn á Stórhöfða. Einhverra hluta vegna nær hann beygjunni illa og fer utan í nokkra bíla á bílasölunni á horninu,“ segir Vilmundur.

Jeppi stórskemmdist.Vísir/Böddi
Bíll hans stóð úti á götu með blikkljós því hann var að merkja fyrir framkvæmdir í götunni.

„Það vill svo til að ég er ekki inni í bílnum. Ég er að labba með keilu út á umferðareyju þegar hann kemur og straujar bílinn minn einhverja tíu metra og heldur svo áfram inn eftir götunni,“ segir Vilmundur.

„Ég var hinum megin við götuna. Þetta var spurning um einhverjar tuttugu sekúndur frá því ég fór út úr bílnum þar til keyrt var á hann.“

Lögreglan rannsakar hvað fór úrskeiðis.

Frá Stórhöfða í morgun.Vísir/Böddi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×