Innlent

Holtavörðuheiðin enn lokuð

Atli Ísleifsson skrifar
Holtavörðuheiðin er  lokuð en hægt er að fara hjáleið um Laxárdalsheiði og Bröttubrekku en að þar sé þæfingsfærð.
Holtavörðuheiðin er lokuð en hægt er að fara hjáleið um Laxárdalsheiði og Bröttubrekku en að þar sé þæfingsfærð. Mynd/Geir
Hálka og skafrenningur eru á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum en hálkublettir eða hálka á Reykjanesbraut. Hálka er annars  á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að enn sé Holtavörðuheiði lokuð en hægt er að fara hjáleið um Laxárdalsheiði og Bröttubrekku en að þar sé þæfingsfærð. „Einnig er þæfingsfærð í Borgarfirði en snjóþekja og éljagangur á Vatnaleið og á norðanverðu Snæfellsnesi.  Þungfært er um Heydal en  annars er víða hálka eða snjóþekja á Vesturlandi.“

Á Vestfjörðum er snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Ísafjarðardjúpi og víða éljagangur eða snjókoma.  Þæfingsfærð er á Barðaströnd en hálka á Kleifaheiði.  Snjóþekja er á Klettshálsi, Mikladal og Hálfdán.

„Lokað og allur akstur bannaður á Þverárfjalli en snjóþekja og snjókoma á flestum leiðum í Húnavatnssýslu.  Flughálka með stórhríð er frá Sauðárkróki að Hofsósi. Ófært er frá Hofsósi að Siglufirði en þungfært í Út -Blönduhlíð. Ófært er á Öxnadalsheiði.

Hálka og skafrenningur er á Víkurskarði og á flestum vegum á Norðurlandi eystra en þæfingsfærð á Hólasandi.

Hálka er á Fagradal, Fjarðarheiði og Oddskarði og á vel flestum vegum á Austur- og Suðausturlandi.  Flughálka er einnig á milli Víkur í Mýrdal og Steina,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að búast megi við minniháttar töfum í Hvalfjarðargöngum í nótt, aðfaranótt 18. desember 2014 frá klukkan 00:30 og fram undir morgun vegna vinnu við vegbúnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×