Erlent

Vill fara sem fyrst úr ESB

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nigel Farage gæti hæglega halað inn fjórðung eða jafnvel þriðjung atkvæða í Bretlandi í dag.
Nigel Farage gæti hæglega halað inn fjórðung eða jafnvel þriðjung atkvæða í Bretlandi í dag.
Boðskapur Nigels Farage er einfaldur: Bretland á að hverfa úr Evrópusambandinu. Rökstuðningurinn er líka einfaldur: Evrópusambandið er að eyðileggja Bretland með ofstjórn og útlendingaflóði frá fátæku löndunum í austanverðri Evrópu.

„Við höfum galopnað dyrnar fyrir nærri hálfum milljarði íbúa úr öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins,“ er yfirlýsing sem hann hefur hamrað mjög á undanfarið.

Þannig elur hann á ótta Breta við að missa lífsviðurværi sitt í hendur fátæka fólksins frá útlöndum og lætur það ekkert trufla sig þótt nákvæmlega engar líkur séu á því að allir íbúar hinna Evrópusambandsríkjanna taki upp á því að flytja til Bretlands.

Fordómar

Hann hefur verið gagnrýndur fyrir þröngsýni, fordóma og kynþáttahatur en þær ásakanir virðast hrökkva af honum jafnharðan, enda svarar hann hástöfum og segist bara vera að segja sannleikann.

Hann neyddist reyndar til að draga aðeins í land með alhæfingarnar eftir ummæli sín í útvarpsviðtali um síðustu helgi, þar sem hann hafði sagst þurfa að hafa varann á sér ef svo færi að hópur Rúmena flytti í húsið við hliðina á honum.

„Yfirgnæfandi meirihluti þeirra Rúmena sem hafa komið til Bretlands vilja bæta líf sitt og myndu verða góðir nágrannar,” sagði hann í yfirlýsingu á mánudag og fullyrti þar að flokkur sinn væri ekki flokkur kynþáttahatara.

Samt dró hann í sömu yfirlýsingu fram tölfræði um glæpagengi frá Rúmeníu og sagði að Bretland ætti alls ekki að vera með opið upp á gátt gagnvart öllum íbúum Rúmeníu. Aðeins þegar farið væri að kanna bakgrunn þeirra Rúmena, sem vildu flytjast til Bretlands, gæti hann svarað því neitandi ef spurt væri hvort Bretar þyrftu að hafa áhyggjur ef hópur Rúmena flytti í næsta hús.

Þannig að í reynd ítrekaði hann hin umdeildu ummæli sín í þessari sömu yfirlýsingu, sem hann sendi frá sér á mánudag til að bera af sér ásakanir um kynþáttafordóma.

Mælska

Farage er mikill mælskumaður og lætur engan vaða ofan í sig. Nick Clegg, leiðtogi Frjálslynda flokksins og varaforsætisráðherra í ríkisstjórn Davids Cameron, fór halloka fyrir honum í tveimur sjónvarpskappræðum nýlega. Clegg virkaði bæði þvælinn og hikandi andspænis sjálfsöruggum og fullyrðingaglöðum Farage.

Hvorki Cameron forsætisráðherra né Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, létu hafa sig út í kappræður við Farage um Evrópusambandið. Fyrir vikið sakar hann þá um hugleysi en hrósar Clegg fyrir að hafa látið sig hafa það.

Mælskugleðin og sjálfsöryggið í Farage hefur skilað því að flokkur hans gæti hæglega halað inn fjórðung eða jafnvel þriðjung atkvæða í Evrópuþingskosningunum í dag.

Farage segir að sigur sinn muni valda jarðskjálfta í breskum stjórnmálum. Á vettvangi Evrópuþingsins er ekki síður að vænta áhrifa þegar andstæðingar ESB mæta fílefldir til leiks og taka til við baráttu sína gegn þeim stofnunum, sem þeir hafa verið kosnir til að vinna fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×