Innlent

Nota verkföll sem skiptimynt

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
BSRB samþykkti harðorðar ályktanir á aðalfundi sínum.
BSRB samþykkti harðorðar ályktanir á aðalfundi sínum. Fréttablaðið/Anton
Aðalfundur BSRB krefst þess að þegar verði gengið frá kjarasamningum við þau aðildarfélög bandalagsins sem hafa lausa samninga við stofnanir innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar frá því á laugardag.

Aðalfundurinn krefst þess einnig að SFV komi með raunverulegan samningsvilja að samningaborðinu í stað þess að nota verkföll hjá stofnunum sínum sem skiptimynt í deilum sínum um fjárveitingar við stjórnvöld.

Þá var einnig samþykkt ályktun um skuldaleiðréttingar þar sem BSRB mótmælir því að ekki sé komið til móts við þá sem eru á leigumarkaði í nýsamþykktum skuldaleiðréttingum ríkisstjórnarinnar. Þessari mismunun er mótmælt og þess krafist að úr verði bætt.

Þá mótmælir aðalfundurinn auknum álögum á sjúklinga og varar við öllum aðgerðum sem miða að því að færa verkefni á sviði heilbrigðismála frá opinberum aðilum til einkaaðila.

Aðalfundur BSRB krefst þess að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, aðbúnað og kjör starfsfólks hennar og jafnframt lágmarka greiðsluþátttöku almennings svo heilbrigðisþjónustuna megi reka á samfélagslegum grunni til framtíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×