Innlent

Dularfull símtöl að næturlagi lögreglunni ráðgáta

Jakob Bjarnar skrifar
Rannsóknir Stefáns Eiríkssonar og hans manna beinast nú í auknum mæli inn á refilstigu netsins.
Rannsóknir Stefáns Eiríkssonar og hans manna beinast nú í auknum mæli inn á refilstigu netsins.
Lögreglan heldur áfram að vara við svikahröppum á netinu, sem senda tölvupósta þar sem lofað er gulli og grænum skógum en nú hafa dularfull símtöl að næturlagi bæst við úrlausnarefni Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra og hans manna.

„Reglulega fáum við ábendingar um símtöl sem berist um miðjar nætur, þar sem lagt sé áður en viðkomandi nær að svara. Þessi símtöl eiga það sammerkt að berast mörg saman og þá frá nokkrum mismunandi númerum, oftast frá nokkrum löndum, að því er virðist,“ segir í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á Facebook.

Svo virðist sem þessi dularfullu símtöl að næturlagi séu lögreglunni talsverð ráðgáta því ekki kemur neitt fram um hvað hinum meintu svikahröppum gengur til eða út á hvað þessi símtöl ganga: „Nokkuð ónæði getur verið af þessum símtölum en mikilvægt er að hringja alls ekki tilbaka ef númerið er ekki þekkt. Sumir vinir lögreglunnar á fésbókinni hafa sagt að nóg sé að slökkva á símanum, eina nótt, en þá hætti þessi símtöl, þó við seljum það sannarlega ekki dýrara en við keyptum það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×