Innlent

Sögufræg stríðsvél á leið til Reykjavíkur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugvélin er sú eina sem eftir er af þeim sem fallhlífahermenn stukku úr í innrásinni í Normandí á D-daginn þann 6. júní árið 1944.
Flugvélin er sú eina sem eftir er af þeim sem fallhlífahermenn stukku úr í innrásinni í Normandí á D-daginn þann 6. júní árið 1944. Mynd/Getty.
Flugvél sem verður einn af hápunktum minningarathafna í Evrópu vegna 70 ára afmælis innrásarinnar í Normandí millilendir á Reykjavíkurflugvelli síðdegis í dag. Þetta er svokallaður þristur, Douglas C-47, en farþegaútgáfan kallaðist DC-3. Þetta er eina flugvélin sem eftir er flughæf í heiminum af þeim sem fluttu fallhlífahermenn í fyrstu árásarhrinunni frá Englandi til stranda Frakklands þann 6. júní árið 1944, eða D-daginn svokallaða, sem markaði þáttaskil í frelsun Evrópu undan oki nasista.

Flugvélin ber heitið Whisky 7 og er í eigu flugminjasafns í New York-ríki. Á innrásardaginn var hún forystuvél einnar flugsveitarinnar.  Í minningarathöfnum í tilefni afmælisins er áformað að fallhlífarhermenn stökkvi úr henni á ný yfir Normandí. Þjóðarleiðtogar, þar á meðal Barack Obama og Vladimir Pútín, hafa boðað komu sína.

Það er mikið og flókið verk að ferja svo gamlan grip yfir Atlanthafið og þurfti að gera endurbætur á henni fyrir um 30 milljónir króna áður en óhætt þótti að leggja af stað. Ferjuflugið frá New York tekur nokkra daga en vélin millilenti í Maine, Goose Bay á Labrador og á laugardag í Narsarssuaq á Grænlandi. Þaðan hóf hún sig til flugs klukkan 11.27 í morgun og er búist við henni til Reykjavíkur um klukkan fjögur síðdegis. Héðan liggur leiðin til Skotlands á morgun.

Þessi sama flugvél tók einnig þátt í loftbrúnni til Berlínar á árunum 1948 til 1949 þegar Sovétmenn lokuðu öllum landleiðum til borgarinnar á upphafsárum kalda stríðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×