Spænsku stórliðin Barcelona og Real Madrid mætast þriðja sinni á þessu tímabili í kvöld þegar þau eigast við í sérstakri bikarútgáfu af El Clásico.
Þessir risar mætast á Mestalla-vellinum í Valencia í kvöld í úrslitaleik spænska Konungsbikarsins en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 19.30.
Barcelona missteig sig hrapallega í deildinni um helgina þegar það tapaði fyrir Granada og þá er liðið úr leik í Meistaradeildinni. Real getur enn unnið þrennuna en þarf þá að vinna erkifjendur sína í kvöld.
Þegar liðin mættust í El Clásico í deildinni á dögunum vann Barcelona á Santiago Bernabéu, 4-3, í mögnuðum fótboltaleik. Þar hjálpuðu Real-menn við að grafa sína eigin gröf því Sergio Ramos fékk nokkuð klaufalegt rautt spjald.
„Við spiluðum vel á Bernabéu en við gerðum mistök. Við verðum að koma í veg fyrir þessi mistök sem við gerðum í síðasta leik. Við munum reyna að spila okkar leik. Það hefur gengið vel á tímabilinu,“ segir CarloAncelotti, þjálfari Real Madrid.
Ancelotti vill ekki sjá nein mistök gegn Barcelona
Tómas Þór Þórðarson skrifar
