Innlent

Eiginmaður forstöðukonu neitar allri sök

Snærós Sindradóttir skrifar
Brotin áttu sér stað á sumardvalarheimili rétt utan við Selfoss
Brotin áttu sér stað á sumardvalarheimili rétt utan við Selfoss
Eiginmaður forstöðukonu sumardvalarheimilis fyrir fatlaða, rétt utan við Selfoss, neitar að hafa brotið gegn tveimur fötluðum konum sem hafa kært hann fyrir kynferðisbrot gegn sér.

Um tvö aðskilin mál er að ræða en rannsókn annars þeirra er lokið og er það nú til meðferðar hjá ríkissaksóknara. Búist er við að rannsókn síðara málsins klárist í næsta mánuði. Manninum er gefið að sök að hafa brotið gegn konunum tveimur, sem eru þroskahamlaðar, síðastliðið sumar.

Forstöðukona heimilisins greindi Fréttablaðinu frá því að önnur konan hefði lýst bílferð sem hún fór í ein með manninum en sjálf vill forstöðukonan meina að slíkt hafi aldrei átt sér stað.

Heimilið hefur tekið á móti fötluðu fólki í sumardvöl um áratugaskeið. Samkvæmt heimildum hafa ekki komið fram ásakanir fyrr um kynferðisbrot.VÍSIR
Jafnframt greindi hún frá því að sér sé ætlað að hafa komið að manni sínum við eitt brotanna en konan harðneitar að það hafi nokkru sinni átt sér stað. Hún segist ekki leggja neina trú á sögu kvennanna og segir þær hafa eyðilagt starfsemi sína. 

Maðurinn sem kærður hefur verið fyrir brotið neitar sömuleiðis sök. „Það á bara eftir að koma í ljós hvernig þetta horfir við mér,“ segir maðurinn. „Þetta mál hefur bara sinn gang og það verða væntanlega dómstólar að skera úr um það hvað er rétt og hvað er rangt í þessu.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er álitamál um grófleika brotanna. Rannsókn málsins muni leiða í ljós hvort um brot gegn 194. grein almennra hegningarlaga sé að ræða en samkvæmt því ákvæði telst það nauðgun að notfæra sér andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök. 

Einnig komi til álita að brotin falli undir 199. grein laganna en hún snýr að banni við kynferðislegri áreitni sem meðal annars felst í káfi á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan. 

Sumardvalarheimilið hefur verið starfrækt um áratugaskeið. Starfsemi þess var hætt þegar ásakanirnar komu upp og segir forstöðukona heimilisins að starfið verði ekki tekið upp að nýju þegar málinu lýkur. 

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var félagsmálayfirvöldum í nærliggjandi sveitarfélögum greint frá því að rannsókn málsins stæði yfir. Ekki hafa komið fram fleiri ásakanir á hendur manninum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×