Innlent

Húsnæðiskostnaður næstlægstur hér á landi

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Hagfræðideild Landsbankans birti í morgun Hagsjá þar sem fjallað er um íslenskan húsnæðismarkað en hún hefst á þessum orðum:

„Sé tekið mið af umræðu síðustu ára hér á landi mætti ætla að byrði íslenskra heimila vegna húsnæðiskostnaðar hefði bæði aukist verulega á síðustu árum og væri þar að auki mun meiri en í nálægum löndum. Hvorugt er hins vegar rétt, sé tekið mið af opinberum tölum um stöðu þessara mála.“

Í skýrslunni kemur fram að hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum árið 2013 var hæst í Danmörku af norðurlöndunum, en fjórðungur ráðstöfunartekna Dana fer í húsnæðiskostnað. Ísland er næstneðst á listanum, með 16,5%.

„Sumar þjóðir eins og Danir, eru langt fyrir ofan okkur. Eru að nota miklu meira af sínum tekjum til húsnæðis,“ segir Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum.

Það hefur nú verið rætt hér á landi að taka upp danska húsnæðiskerfið. Það hlýtur þá að skjóta skökku við eða hvað?

„Já, að einhverju leyti gerir það það. Vegna þess að það lítur út fyrir að Danir noti meira af sínum tekjum til að greiða fyrir húsnæði og svo eru líka til stærðir sem sýna okkur það að dönsk heimili, þau skulda miklu meira heldur en heimili á Íslandi,“ segir Ari.

Fyrir rúmu ári gengu Íslendingar til alþingiskosninga en fátt var rætt meira í kosningabaráttunni en skuldavandi íslenskra heimila. En er þessi skuldavandi ofmetinn?

„Já, ég held að hann sé ofmetinn ef þú tekur meðalheimilið. Staðan er þannig að um það bil helmingur íslenskra heimila skuldar ekkert vegna húsnæðis. Þannig hvað varðar þann hluta þá er vandamálið örugglega ofmetið. En að segja að sem svo að vandi allra sé mjög mikill, það er mikið ofmat,“ segir Ari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×