Fótbolti

Ferguson skoðar skammarkrókinn fyrir UEFA

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sir Alex Ferguson er ekki alveg hættur í boltanum.
Sir Alex Ferguson er ekki alveg hættur í boltanum. vísir/getty
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, fer fyrir nefnd innan evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, sem skoðar möguleikann á að taka upp „skammarkrókinn“ (e. Sin bin) í fótboltanum.

Skammarkrókurinn er notaður í ruðningi og virkar þannig að mönnum er vísað af velli í tíu mínútur brjóti þeir af sér, en það er bara ein þeirra hugmynda sem Ferguson og fleiri þjálfarar eru með á teikniborðinu.

„Ég fer fyrir nefnd nokkurra frábærra þjálfara sem hittast á hverju ári og svo er ég meðlimur í tæknihópi Meistaradeildarinnar og Evrópumótsins þannig ég er enn viðloðinn fótboltann á hæsta stigi,“ segir Ferguson.

„Þessa stundina erum við að skoða að innleiða skammarkrókinn eins og í ruðningi - tíu mínútna brottvísun á meðan leik stendur. Við viljum samt ekki að hægt sé að misnota þetta á einhvern hátt ef þetta verður innleitt.

Ferguson var ánægður með ákvörðun UEFA að fella niður gul spjöld í Meistaradeildinni þegar komið er í undanúrslitin þannig ekki er möguleiki á að neinn leikmaður missi af úrslitaleiknum vegna tveggja gulra spjalda.

„Við vorum án Darren Fletcher 2009 gegn Barcelona og hvorki Keane né Scholes voru með 1999 gegn Bayern München. Eins og þetta er í dag þá hefðu þeir allir spilað þannig það er ekki sanngjarnt að þeir misstu af þessum leikjum,“ segir Ferguson, en nefndin sem hann er í er að skoða fleiri breytingar í boltanum.

„Við erum að kanna hvort það eigi að vera með ellefu leikmenn á varamannabekknum í stórum úrslitaleikjum í Evrópuboltanum. Þannig er hægt að meta hóp hvers liðs betur og þjálfarar hafa úr fleirum að velja,“ segir Ferguson.

„Þetta myndi samt ekki ganga upp í úrvalsdeildinni. Of margir stjórnarformenn myndu kvarta yfir öllum bónusunum sem þeir þyrftu að borga!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×