Innlent

Alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur fór þess á leit við EFTA-dómstólinn í desember síðastliðnum, að hann veitti ráðgefandi álit um lögmæti verðtryggingarinnar. Munnlegur málflutningur í málinu, sem höfðað var gegn Landsbankanum, fór fram fyrir EFTA-dómstólnum í Lúxemborg í gær.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekur undir málatilbúnað Íslendings sem sækir málið gegn Landsbankanum en hann var með verðtryggt neyslulán hjá bankanum.

Ríkisstjórn Íslands er á meðal þeirra sem skiluðu greinargerð í málinu en hún tekur undir málatilbúnað Landsbankans í málinu enda bankinn í ríkiseigu.

Í skýrslu framsögumanns EFTA-dómstólsins kemur fram að afstaða ríkisstjórnar Íslands til þess, hvort verðtrygging neytendalána stangist á við tilskipanir ESB, sé eftirfarandi:

„Varðandi annað skilyrðið og með vísan til dómaframkvæmdar telur ríkisstjórn Íslands að hætt væri við umtalsverðum og alvarlegum efnahagslegum afleiðingum ef það reynist ekki samrýmast tilskipun 87/102/EBE að lántakar fái upplýsingar um ÁHK og heildarlántökukostnað á raunvirði.“

„Ríkisstjórn Íslands vill sérstaklega lýsa áhyggjum sínum yfir afturvirkum endurgreiðslum og endurreikningi sem gætu haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir fjármálamarkaði og –stofnanir Íslands.“

Sem sagt, verði niðurstaða dómstóla á þá leið að verðtrygging neyslulána gangi í berhögg við tilskipun Evrópusambandsins, þá mun það, að mati ríkisstjórnar Íslands, hafa alvarleg efnahagsleg áhrif hér á landi.

Sem fyrr segir fór munnlegur málflutningur í málinu fram í gær, en reiknað er með niðurstöðu í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×