Fótbolti

Platini berst áfram fyrir hvíta spjaldinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini, forseti UEFA.
Michel Platini, forseti UEFA. Vísir/Getty
Michel Platini, forseti UEFA, heldur áfram í þá hugmynd sína að bæta við þriðja spjaldinu í fótboltann en fyrir eru gula og rauða spjaldið. Næst á dagskrá hjá Frakkanum er að sannfæra FIFA.

„Hvíta spjaldið er ný hugsun og það er hægt að nota það til að hafa áhrif á hegðun fótboltaleikmanna. Fólk sem elskar fótbolta sættir sig ekki við leikaraskap og gagnrýni á frammistöðu dómara. Dómarinn hefði meiri möguleika með hvíta spjaldinu," sagði Michel Platini á íþróttaráðstefnu í Dúbæ.

„Með hvíta spjaldinu getur dómarinn vísað leikmanni af velli í nokkrar mínútur, fimm til tíu mínútur. Það mun auka vinsældir fótboltans meðal fólks sem líkar ekki slæm hegðun. Ég tel að við eigum að læra af öðrum íþróttum eins og rúgbí þar sem þeir nota svona kerfi," sagði Platini.

„Gulu og rauðu spjöldin verða áfram til en það er áhugavert ef dómarar hafa fleiri möguleika. Nú þurfum við bara að sannfæra FIFA," sagði Platini.

Platini leggur þó áherslu á það að reglur hvíta spjaldsins verði að vera mjög skýrar þannig að allir átti sig auðveldlega á því hvenær slíkt spjald á rétt á sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×