Innlent

Ótrúleg röð tilviljana olli því að drengur datt úr rútu á ferð

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Faðir sjö ára drengs, sem datt út úr rútu á ferð á leið í skólasund fyrr í vikunni, segir ótrúlega mildi að hann hafi ekki stórslasast. Rútan hefur verið yfirfarin og verklagi í skólanum breytt vegna slyssins.

Rútan var á leið með sextán börn í skólasund, og var á vistgötuhraða, en svo virðist sem belti drengsins hafi losnað og hann fallið að hurð sem opnaðist. Drengurinn datt út úr rútunni á gatnamótum Kársnesbrautar og Urðarbrautar í Kópavogi, en bílstjórinn varð ekki var við slysið og keyrði áfram sem leið lá að Kópavogslaug, sem er um hálfum kílómetra í burtu.

„Þetta var enginn glæfraakstur eða neitt svoleiðis, og það er kannski ekki skrítið að bíljstórinn hafi ekki áttað sig á aðstæðunum þar sem sonur minn sat aftast og það voru fimmtán háværir krakkar í rútunni. Þetta er líka svo stjarnfræðilega fjarstæðukennt að það er eiginlega brandari, bara ekki eins jákvætt,“ segir Sindri Viborg, faðir drengsins.

Tveir vegfarendur komu drengnum til hjálpar þar sem hann lá á götunni og fóru með hann að Kópavogslaug.

„Hann var auðvitað í sjokki og grátandi og það tók þá smá tíma að fá upp úr honum hvað hefði gerst, en svo sagði hann þeim að hann hefði dottið út úr rútu, eins fáránlega og það hljómar,“ segir hann.

Sonur Sindra fékk stóran skurð á höfuðið í fallinu og var fluttur á á Barnaspítala Hringsins til eftirlits og athugunar, en Sindri segir ótrúlegt að ekki hafi farið verr

„Strákurinn fór bara í skólann daginn eftir og er bara nokkuð góður, allavega betri en við foreldrarnir“.  

Rútan sem keyrði börnin er með öll tilskilin leyfi og bílstjórinn athugaði hvort allir væru í bílbeltum áður en haldið var af stað. Gagrýni Sindra beinist því helst að því að enginn frá skólanum hafi umsjón með börnunum þegar þau eru keyrð til og frá sundlauginni. Bæði skólayfirvöld og Kópavogsbær hafa nú lýst því yfir að það standi til bóta og að umsjónarmaður muni nú fylgja þeim.

„Auðvitað er ótrúlegt að fá svona fréttir, þetta er svo mikil röð tilviljana að það er eiginlega eins og í bíómynd. Líkurnar á að svona gerist eru stjarnfræðilegar. En það hafa allir brugðist rétt við í þessu máli, skólinn, bærinn og rútufyrirtækið. Ég er mjög ánægður með það,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×