Innlent

Óvissuástandi vegna snjóflóðahættu aflétt á Vestfjörðum

Óvissuástandi vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum var aflétt í gærkvöldi, en hætta er áfram á snjóflóðum utan byggðar á svæðinu líkt og á utanverðum Tröllaskaga.

Verulega hefur dregið úr vindi og í morgun var orðið heiðskýrt vestra. Þar eru flestir aðal vegir orðnir færir og sömuleiðis á Norðurlandi.

Lítið sem ekkert snjóaði á Akureyri en mikill snjór er í bænum eftir stórhríðina í fyrrinótt. Það varð ölvuðum ökumanni að falli í gærkvöldi, sem festi bíl sinn í ófærðinni og sat hann þar enn þegar lögreglu bar að.

Það er enn hvasst á Austfjörðum og varar Veðurstofan við mjög snörpum kviðum þar fram að hádegi, en þá fer að lægja. Efnt var til hópaksturs á milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða í gær þar sem snjóruðningstæki fóru fyrir hópnum báðar leiðir, en leiðin hafði verið lokuð lengi. Búist er við enn einni lægðinni með stormi og snjókomu á sunnudaginn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×