Fótbolti

Handtekin fyrir að klæðast eins og karlmaður á fótboltaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/AFP
Kona var handtekin á fótboltaleik í Sádí-Arabíu á föstudaginn en ástæðan fyrir handtökunni hefur ratað í heimsfréttirnar enda verður hún að teljast óvenjuleg.

Konan umrædda skellti sér nefnilega á fótboltaleik í Jeddah í Sádí-Arabíu þar sem öryggisverðir á vellinum sá hana í stúkunni og kölluðu til lögreglu.

Leikurinn fór fram á Al-Jawhara leikvanginum en hann endaði með að gestaliðið Al-Shabab frá Riyadh vann 1-0 sigur á heimamönnum í Al-Etihad.

Konan sagðist ekki hafa vitað af því að konur mættu ekki láta sjá sig á fótboltaleikjum samkvæmt fréttum frá Sádí-Arabíu.

Atti al-Qurashi, talsmaður lögreglunnar í Jeddah, staðfesti sem dæmi að konan hafi verið handtekin fyrir að reyna að blekkja lögregluna með því að klæðast karlmannsfötum.

Myndband af konunni á fótboltaleiknum rataði inn á YouTube en það var seinna tekið út. Mörg ljót karlrembu-ummæli birtust meðal annars undir myndbandinu á YouTube og mikil umræða skapaðist einnig um þetta atvik á samfélagsmiðlum.

Konur í Sádí-Arabíu þurfa að sætta sig við við allskonar misrétti og bann þeirra á fótboltaleikjum er aðeins eitt af mörgum slíkum bönnum í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×