Enski boltinn

Bony aðeins seldur á stjarnfræðilega upphæð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bony fagnar marki með Jefferson Montero.
Bony fagnar marki með Jefferson Montero. Vísir/Getty
Wilfried Bony, framherjinn öflugi hjá Swansea, hefur slegið í gegn með félaginu en Garry Monk, stjóri félagsins, hefur engan áhuga á að selja kappann.

Enginn leikmaður hefur skorað fleiri mörk í ensku úrvalsdeildinni á árinu 2014 eða átján talsins. Bony og landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hafa svo náð einstaklega vel saman í upphafi leiktíðar.

„Það þyrfti stjarnfræðilega upphæð til að Bony myndi fara eitthvert annað,“ sagði Monk í samtali við enska fjölmiðla.

„Við erum ekki félag sem þrífst á því að selja leikmenn. Við þurfum ekki að selja neinn.“

Swansea greiddi tólf milljónir punda fyrir Bony í fyrra er hann kom frá hollenska liðinu Vitesse Arnhem. Þar skoraði hann 51 mark í 69 leikjum.

Arsenal, Liverpool og Tottenham eru öll sögð hafa áhuga á kappanum en Bony skrifaði nýverið undir nýjan samning við Swansea sem gildir til ársins 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×