Fótbolti

Henry óákveðinn um næstu skref

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Henry í sínum síðasta leik með New York Red Bull.
Henry í sínum síðasta leik með New York Red Bull. Vísir/Getty
Thierry Henry hefur spilað sinn síðasta leik fyrir bandaríska MLS-liðið New York Red Bull eftir fjögurra og hálfs árs dvöl hjá félaginu.

Henry er 37 ára gamall og spilaði í 2-2 jafntefli Red Bull gegn New Englands Revolution. Liðið féll þar með úr leik í úrslitakeppni deildarinnar.

„Það var alltaf ákveðið að ég myndi fara eftir að samningur minn rynni út,“ sagði Henry. „Ég mun ákveða á næstu vikum næstu skref á mínum ferli.“

Henry lék með Arsenal frá 1999 til 2007, þar sem hann varð tvívegis enskur meistari, og vann svo Meistaradeild Evrópu með Barcelona áður en hann hélt til Bandaríkjanna.

Henry sagði í samtali við franska dagblaðið L'Equipe í síðasta mánuði að hann myndi áfram starfa við knattpsyrnu, ýmist sem þjálfari, ráðgjafi eða í stjórnunarstarfi.

„Það sem er einnig víst er að ég myndi vilja að Arsenal ynni Meistaradeild Evrópu. Hvort sem það gerist fyrr eða síðar er ekki undir mér komið en ég myndi gjarnan vilja hjálpa til,“ sagði hann.

„Arsenal er mitt félag og mér tókst ekki að færa því Meistaradeildartitil sem leikmaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×