Enski boltinn

Balotelli kominn í klandur vegna myndar á Instagram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Enska knattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á mynd sem Mario Balotelli birti á Instagram-síðunni sinni í gær. Myndin hefur nú verið fjarlægð.

Balotelli, sem leikur með Liverpool, endurbirti mynd sem hafði verið í dreifingu á samfélagsmiðlinum. Þar kom fram að tölvuleikjapersónan Super Mario „stekkur eins og svartur maður og grípur peninga eins og gyðingur“.

Balotelli fjarlægði myndina og tók fyrir það á Twitter-síðu sinni að hann væri gyðingahatari. „Mamma mín er gyðingur þannig að haldið öll sömul kjafti,“ skrifaði hann.

Hann virtist þó sjá að sér að einhverju leyti og sagði að myndbirtingin á síðunni sinni hafi verið „óheppilegt augnablik“ hjá sér.

Balotelli hefur átt við meiðsli að stríða og verður ekki í leikmannahópi Liverpool sem mætir Leicester í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×