Innlent

Stórskemmdu bíl lögreglumanns og rispuðu „svín“ á hann

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá myndir af bíl lögregluvarðsstjórans á Þórshöfn.
Hér má sjá myndir af bíl lögregluvarðsstjórans á Þórshöfn.
Lögreglan á Húsavík leitar nú þeirra sem rispuðu bíl lögregluvarðsstjórans á Þórshöfn. Bíll varðsstjórans, sem er af gerðinni Volvo XC90, var fyrir utan lögerglustöðina á Þórshöfn þegar hann var skemmdur.

Þeir sem voru þarna að verki rispuðu orðið „svín“ á bílinn og fleiri orð. Í tilkynningu frá lögreglunni í Húsavík segir að fleiri orð hafi verið rispuð á bílinn „sem greinilega eru til þess ætluð að vega að honum og starfi hans sem lögreglumanns í samfélaginu Langanesbyggð.“

Lögreglan á Húsavík biður þá sem telja sig geta veitt upplýsingar um málið að hafa samband í síma 444-2850.

Tilkynning lögreglunnar er svo:

„Lögreglan á Húsavík óskar að koma eftirfarandi tilkynningu á framfæri við íbúa Þórshafnar og nágrennis og allra annarra sem telja sig geta veitt upplýsingar.

Nú nýverið voru unnar miklar skemmdir á bifreið lögregluvarðstjóra á Þórshöfn, með því að rispa bílinn allan og m.a. rispa á hann orð sem greinilega eru til þess ætluð að vega að honum og starfi hans sem lögreglumanns í samfélaginu Langanesbyggð. Bifreiðin var skemmd þar sem hún stóð utan við lögreglustöðina á Þórshöfn.

Lögreglan á Húsavík biðlar til þeirra sem búa yfir upplýsingum um þetta mál og vita hver eða hverjir voru að verki, að hringja í síma 444-2850 og koma þeim upplýsingum á framfæri.

Með fyrirfram þökk f.h. lögreglunnar á Húsavík

Aðalsteinn Júlíusson lögreglumaður.“

Hér að neðan má sjá myndir af skemmdunum sem unnar voru á bíl lögregluvarðstjórans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×