Innlent

Telja óviðunandi að verið sé að dreifa röngum upplýsingum

Stefán Árni Pálsson skrifar
VÍSIR/ANTON
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlega athugasemd við fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg um nýsamþykkta fjárhagsáætlun 2015 en þetta kemur fram í tilkynningu frá Borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins.

Þar kemur fram að í fréttatilkynningunni sé því ranglega haldið fram að framlag borgarinnar til hráefniskaupa í leik- og grunnskólum hækki um 56 milljónir króna frá fyrri áætlun.

„Í dag hafa margir fjölmiðlar notað þessa tilkynningu í fréttaflutningi sínum og stuðst við þær tölur sem þar koma fram. Hið rétta er að fjárveitingar til skólamötuneyta lækka um 28 milljónir á milli ára auk þess sem umrædd framlög eru ekki vísitölubætt eins og flestar aðrar fjárveitingar borgarinnar. Þrátt fyrir að á þetta hafi verið bent hér á fundinum hafa fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna ekki sýnt því neinn áhuga að þessi fréttatilkynning verði leiðrétt.“

Borgarstjórnarhópurinn telur óviðunandi að meirihluti þessara flokka dreifi með þessum hætti röngum upplýsingum í fréttatilkynningu sem send eru út á vegum Reykjavíkurborgar og afvegaleiði þannig fjölmiðla í umfjöllun þeirra um málefni skólamötuneyta í Reykjavík, sem verið hafa í brennidepli að undanförnu.

„Í frumvarpi meirihlutans að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2015, sem lagt var fram í borgarstjórn 4. nóvember sl., var gert ráð fyrir að fjárveitingar til hráefniskaupa skólamötuneyta yrðu skert um samtals 94 milljónir króna á milli ára, 36 milljónir til mötuneyta leikskóla og 58 milljónir til mötuneyta grunnskóla. Eftir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að horfið yrði frá umræddri skerðingu og framlög til hráefniskaupa yrðu vísitölubætt um 3,4% á milli ára, lagði meirihlutinn fram breytingartillögu við frumvarpið, sem fól í sér að dregið yrði úr áðurnefndri skerðingu um 66 milljónir, þar af yrði 36 milljónum varið til mötuneyta leikskóla en 20 milljónum til grunnskólanna. Eftir sem áður lækka fjárveitingar til skólamötuneyta um 28 milljónir króna milli áranna 2014-2015 auk þess sem ekki er gert ráð fyrir neinni vísitölubætingu,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×