Enski boltinn

Peningar engin fyrirstaða fyrir Van Gaal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samkvæmt frétt sem birtist á fréttavef BBC í morgun hefur Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, fengið þau skilaboð að hann megi eyða eins miklu og honum lystir í leikmenn næsta sumar.

United eyddi 150 milljónum punda, um 29 milljörðum króna, í leikmenn síðastliðið sumar en er engu að síður ellefu stigum á eftir toppliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.

Samkvæmt fréttinni eru þeir Kevin Strootman, Mats Hummels og Diego Godin allir á óskalista Van Gaal en ólíklegt að þeir komi strax í janúar. Ed Woodward, framkvæmdastjóri United, sagði einnig nýverið ólíklegt að United myndi leita að skammtímalausnum þegar opnað verður fyrir félagskipti í janúar.

Woodward sagði að félagið væri með ákveðna leikmenn í huga fyrir næsta sumar. „Ef einhver þeirra stendur okkar til boða í janúar munum við mögulega grípa til aðgerða. En líkurnar á því eru litlar.“

Van Gaal þarf að taka ákvörðun um framtíð nokkurra leikmanna United, svo sem Rafael, Phil Jones, Chris Smalling, Jonny Evans og Robin van Persie. Allir klára sína samninga við félagið vorið 2016.

Hið sama má segja um markvörðinn David De Gea en forráðamenn hafa í hyggju að ræða við hann um nýjan samning fljótlega. Þá er búist við því að Michael Carrick verði boðinn nýr samningur en hann er bundinn félaginu til vorsins.

Þá er talið nánast fullvíst að miðjumaðurinn Anderson fari frá félaginu en ekki fyrr en að samningur hans rennur út í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×