Enski boltinn

West Ham í þriðja sæti | Sjáið mörkin

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Carroll skallar boltann í markið
Carroll skallar boltann í markið Vísir/Getty
West Ham United lagði Swansea City 3-1 á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Staðan í hálfleik var 1-1.

Wilfried Bony kom Swansea City yfir á 19. mínútu eftir laglegan undirbúning Gylfa Þórs Sigurðssonar og Jefferson Montero.

Markið kom þvert gegn gangi leiksins en West Ham United var mun sterkari aðilinn framan af leik.

Eftir markið snérist leikurinn og Swansea náði yfirhöndinni. Annað mark leiksins var því einnig gegn gangi leiksins en Andy Carroll skallaði boltann laglega í netið fjórum mínútum fyrir hálfleik eftir góð fyrirgjöf Carl Jenkinson. Fyrsta mark Carroll á tímabilinu.

West Ham hóf seinni hálfleikinn af krafti og náði nú að nýta yfirburði sína því Carroll skoraði aftur með skalla, nú eftir hornspyrnu Stewart Downing á 66. mínútu.

Tveimur mínútum síðar var Lukasz Fabianski rekinn af leikvelli fyrir að brjóta á varamanninum Diafra Sakho fyrir utan teig en Chris Foy dómari sá ekki að Sakho handlék knöttinn rétt áður en markvörðurinn lenti á honum.

Þrátt fyrir að vera manni færri reyndi Swansea að sækja og jafna metin og það nýtti West Ham sér þegar Sakho stakk vörn Swansea af og skoraði sjöunda markið sitt í níu leikjum og gerði út um leikinn.

West Ham lyfti sér upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum en liðið er með 27 stig í 15 leikjum. Swansea er með 22 stig í 8. sæti.

Bony kemur Swansea yfir: Carroll jafnar metin: Carroll skorar aftur og Fabinaski rekinn útaf: Sakho gerir út um leikinn:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×