Enski boltinn

Wenger óttast að Sanchez meiðist

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Sanchez á æfingu
Sanchez á æfingu vísir/getty
Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta óttast að helsta stjarna liðsins, Alexis Sanchez, meiðist fái hann ekki nauðsynlega hvíld.

Sanchez hefur leikið frábærlega fyrir Arsenal á leiktíðinni. Hann lætur mikið til sín taka, bæði í dugnaði og markaskorun en hann hefur skorað 14 mörk í 22 leikjum fyrir Arsenal.

„Hann er á rauða svæðinu. Þú sérð það í leik hans en hann finnur oft auka orku,“ sagði Wenger.

„Ég þarf að gefa honum viku frí við tækifæri. Hann þarf að fá hvíld.

„Ég hef gert þetta með marka leikmenn sem hafa leikið alla leiki. Ég gerði þetta með (Thierry) Henry og (Robin)van Persie og það hjálpaði þeim að forðast meiðsli,“ sagði Wenger en Sanchez er jafnan í byrjunarliði Arsenal.

„Hann lék sinn 27. leik frá byrjun tímabilsins á miðvikudaginn ef þú landsleiki með, með tilheyrandi ferðalögum. Því miður veistu aldrei hve langt þú getur teygt þig.

„Vísindin eru ekki nógu nákvæm til að greina þetta nákvæmlega en hann er fljótur að jafna sig. Hann hefur þann eiginleika að þegar hann kemur inn á morgnana þá er hann hress. Ég veit ekki hvað hann gerir á nóttunni,“ sagði Wenger.

Reikna má með að Sanchez verði í byrjunarliði Arsenal sem sækir Stoke heim í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2 klukkan 15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×