Innlent

Brotist inn í jólaþorpið í Hafnarfirði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Innbrotið mun þó ekki setja strik í reikninginn og verður fjölbreytt skemmtidagskrá í dag frá klukkan 12-16.
Innbrotið mun þó ekki setja strik í reikninginn og verður fjölbreytt skemmtidagskrá í dag frá klukkan 12-16. vísir/hafnarfjarðarbær
Brotist var inn í jólaþorpið í Hafnarfirði í nótt. Búið var að spenna upp lása á ellefu húsum af tuttugu en ekki liggur fyrir hverju var stolið.

Í tuttugu litlum jólahúsum í Hafnarfirði er seldur ýmis konar jólavarningur en sérstakt matarþema er í ár þar sem seldar eru gómsætar sultur, kandís og annað góðgæti. Mest er um einstaklingssölu en einnig er að finna ýmsar vörur frá fyrirtækjum, handverksfólki og Karmelssystrum, en þær sluppu vel og þeirra hús látið í friði. Marín Hrafnsdóttir, menningar- og ferðamálafulltrúi Hafnarfjarðar, segir tjónið ekki hafa verið mikið, en hvert það sé í krónum talið liggi ekki fyrir.

„Þetta er afskaplega leiðinlegt. Við höfum verið mjög heppin í gegnum tíðina. Það hefur ekki verið mikið um eyðileggingu á skrauti né innbrotum yfir höfuð. En við vonum bara að þetta sé eins og það lítur út fyrir, að það hafi lítið verið tekið. Mest verið rótað. Fólk tekur mestu verðmætin með sér heim, segir Marín í samtali við Vísi.

Innbrotið mun þó ekki setja strik í reikninginn og verður fjölbreytt skemmtidagskrá í dag frá klukkan 12-16 og verður jólaþorpið opið allar helgar fram til jóla. Málið er nú í rannsókn lögreglunnar í Hafnarfirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×