Fótbolti

Meiðsli Kolbeins ekki alvarleg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn borinn af velli um helgina.
Kolbeinn borinn af velli um helgina. Vísir/Getty
Kolbeinn Sigþórsson verður frá næstu 3-4 vikurnar vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í leik með Ajax í hollensku úrvalsdeildinni um helgina. Þetta segir hann í samtali við 433.is.

„Ég er ekki með slitin liðbönd eins og menn héldu. Læknarnir hjá okkur voru hræddir um það,“ sagði Kolbeinn sem telur að hann verði kominn aftur á fullt þegar keppni í hollensku deildinni hefst aftur eftir jólafrí.

Kolbeinn var tæklaður af Ali Messaoud, leikmanni Willem II, en þeir voru liðsfélagar hjá AZ Alkmaar á sínum tíma. „Hann fór mjög gróft í þessa tæklingu og hefði alveg getað sleppt því að fara með báðar lappir,“ sagði Kolbeinn sem heilsaði upp á Messaoud fyrir leikinn.

„Hann sagðist vera ánægður að sjá mig. Það var langt síðan ég hitti hann og ég var ekki alveg að búast við þessu frá honum.“

Kolbeinn segir að þessi meiðsli komi á slæmum tíma enda hafði hann verið mikið á bekknum hjá Ajax síðustu vikurnar. „Þetta er eins og blaut tuska í andlitið. Það er samt ekkert sem ég get gert meira í þessu nema að halda bara áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×