Innlent

Gringó fannst kaldur og örmagna eftir tveggja sólarhringa leit

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá Gringó skömmu eftir að hann fannst.
Hér má sjá Gringó skömmu eftir að hann fannst. Mynd/Albert Steingrímsson
„Hann er allur að koma til. Hann var auðvitað rosalega kaldur,“ segir Cecilie Björg Hjelvik Björgvinsdóttir, eigandi hundsins Gringó sem týndist í Heiðmörk á föstudagskvöld. Gringó týndist þegar verið var að setja á hann ólina. „Hann er á einhverju mótþróaskeiði núna og við höfum hann aldrei lausan, en Gringó er fuglahundur. Dóttir mín var að setja hann í sjálflýsandi vesti og var að setja á hann ólina þegar hann verður var við ref, fugl eða eitthvað og rýkur af stað.“

Cecilie auglýsti eftir hundinum á Facebook og segir viðbrögðin hafa verið ótrúleg. „Okkur var sagt að auglýsa eftir honum á Facebook, að það væri líklegast til árangurs. Mér óraði aldrei fyrir því að svona margir myndi hjálpa til við leitina. Heiðmörkin hreinlega iðaði af lífi bæði á laugardag og sunnudag, það voru svo margir að leita hans. Ótrúlegasta fólk sem við þekktum ekkert var að hringja og spyrja um hann. Maður er hreinlega hrærður yfir þessu. Þetta var bara nánast eins og að manneskja hefði týnst.“

Sýnir hversu ábyrgir hundaeigendur eru

„Mér finnst mikilvægt að segja frá þessu máli. Bæði vegna þess að við fjölskyldan viljum þakka öllum þeim sem hjálpuðu. Við þekkjum ekki alla og viljum fá að koma einlægum þökkum á framfæri. En mér finnst líka mikilvægt að vekja athygli á því hversu ábyrgir hundaeigendur eru. Oft er það í fréttum þegar hundar glefsa eða ef hundaskítur er ekki hirtur og stundum er sagt frá því ef hundar eru vannærðir. En staðreyndin er sú að nánast allir hundaeigendur eru mjög ábyrgir og viljugir til að hjálpa, eins og sást á þessum viðbrgöðum fólks. Þetta var bara með ólíkindum,“ útskýrir hún og bætir við:

„Það var bara eins og einhver maskína færi af stað.“

Fjölskyldan leitaði að Gringó til hálf tvö aðfaranótt laugardags. Einnig var leitað á laugardagskvöldið og svo fannst Gringó um hádegisbilið í gær.

Albert fann hundinn

Það var Albert Steingrímsson sem fann hundinn. Hann segir Gringó hafa verið orðinn kaldan og þreyttan. „Já, hann var alveg bugaður greyið. Hann hálfvegis lá í fastri stöðu þegar við komum að honum. Hann hefði líklega ekki þolað aðra nótt. Vestið sem hann var í var freðið fast við hann.“

Gringó gat varla gengið. „Ég kom einhverju smávegis vatni ofan í hann og þá gátum við aðeins gengið af stað. En hann var svo þreyttur að ég þurfti að halda á honum í bílinn. Það hafa verið einhverjir þrír kílómetrar. Versta við þetta var að farsímasambandið var mjög slæmt þarna, þannig að ég gat ekki hringt í neinn. En þetta hafðist allt.“

Albert naut aðstoðar hundsins sín en þeir fundu slóð Gringó á sunnudeginum. „Það var mjög mikilvægt að finna slóðina og í raun hending. Við sáum að hann var orðinn skref stuttur og áttuðum okkur á að þetta var slóðin hans.“

Gringó er því kominn heim og er allur að braggast eftir samstillt átak hundaeigenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×