Innlent

Engin lausn í sjónmáli í læknadeilunni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Aukinn þungi er að færast í læknadeiluna en ríflega tvö hundruð læknanemar lýstu því yfir í dag að þeir ætli ekki að ráða sig til starfa á heilbrigðisstofnunum landsins fyrr en búið verður að semja við lækna. Tilboðum frá saminganefnd ríksins hefur verið hafnað af læknum en þau hafa hljóðað upp á hátt í tíu prósent launahækkun.

Læknanemar fjölmenntu fyrir utan fjármálaráðuneytið í dag þar sem þeir afhentu Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnhagsráðherra yfirlýsingu sína.

„Við munum ekki sækja um stöður kandídata eða aðstoðarlækna á heilbrigðisstofnunum landsins fyrr en samningar nást milli ríkis og lækna. Einnig viljum við gefa þér þessa hlustunarpípu í þeirri vonum að þér muni ganga betur að hlusta á kröfur lækna og hvetjum við þig til að ganga frá samningum sem allra fyrst,” sagði Daði Helgason talsmaður 6. árs læknanema við Háskóla Íslands.

„Ég hef áhyggjur af þessari stöðu og hef haft lengi. Það er mikið áhyggjuefni að það stefni í enn frekari verkfallsaðgerðir en það breytir ekkert þeirri staðreynd að það er ekki hægt að semja um hluti sem að valda óstöðugleika annars staðar og velta vandanum bara á undan okkur. Við getum ekki gert það,“ segir Bjarni Benediktsson.

 

Þá segir hann samninganefnd ríksins í stigið ákveðin skref í síðustu viku til að freista þess að ná samningum við lækna. „Það hafa komið tilboð af ríkisins hálfu nýlega sem að því miður reyndust ekki nægjanleg en við skulum sjá hvort að hlutirnir komast á einhverja hreyfingu. Ég er ekkert alltof bjartsýnn en ég ætla samt að halda í vonina,“ segir Bjarni.

Á meðan að læknanemar hittu fjármálaráðherra sátu samninganefndir Læknafélags Íslands og ríkisins á fundi í Karphúsinu. Fundurinn stóð í rúma klukkustund og lauk án árangurs. „Við vorum áfram að vinna með efnisleg atriði en varðandi launaliði ber mikið á milli enn þá,“ segir Sigurveig Pétursdóttir formaður samninganefndar Læknafélags Íslands.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur samninganefnd ríksins boðið læknum hátt í 10% launahækkun. Sigurveig vill ekki staðfesta þetta né gefa upp hversu mikla launahækkun þeim hafi verið boðið. Hún segir hana þó hafa verið minni en 10%.

Læknar á rannsóknarsviði Landspítalans, aðgerðarsviði, á kvennadeild og á Barnaspítalanum eru í verkfalli þar til á miðnætti annað kvöld svo og á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum um allt land. Á morgun verður svo birt niðurstaða úr atkvæðagreiðslu lækna um frekari aðgerðir eftir áramótin. Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður á miðvikudaginn. Aðspurð hvort að lausn sé í sjónmáli í deilunni segir Sigurveig „ekki í augnablikinu.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×