Innlent

„Það er ekki slæmt að vera með 22 stelpum“

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eini pilturinn í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað segir ekki slæmt að vera einn með öllum stúlkunum og mælir með náminu fyrir alla stráka.

Þótt eini hússtjórnarskólinn á landsbyggðinni heiti ekki lengur húsmæðraskóli eru stúlkur enn yfirgnæfandi í nemendahópnum og núna á haustönninni er bara einn strákur. Hann heitir Esra Elí Newman, er 17 ára og kemur úr Njarðvík.

„Það er ekki slæmt að vera með 22 stelpum. Maður er bara kóngurinn hérna,“ segir Esra.

Við hittum hann í tíma í hreinlætisfræði þar sem hann var að læra hvernig best væri að skúra. Esra segist hafa valið skólann vegna þess að hann vildi læra að sjá um sig sjálfur. En mælir hann með náminu fyrir stráka?

„Ég mæli með þessu fyrir alla stráka. Sérstaklega ef þú kannt ekki að elda, kannt ekki að hugsa um þig sjálfur.“

Um skólasysturnar segir hann: „Sumar eru bara eins og stórar systur. Þetta eru bara allt vinkonur mínar, - vinir mínir.“

Skólahúsið reis árið 1930 í burstabæjarstíl. Heimavistin er í risinu á efri hæðum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Raunar var okkur sagt að skólinn hefði frá fyrstu tíð haft sterkt aðdráttarafl fyrir stráka á Fljótsdalshéraði en með öðrum hætti; þeir snigluðust gjarnan í kringum heimavistina. 

„Vetrarhjálpin lætur alltaf sjá sig hérna á veturna,“ segir Bryndís Fiona Ford skólameistari. „Við köllum strákana sem sagt, - það er vetrarhjálpin. Þeir koma bara og kíkja á stelpurnar.“

Fjallað var um lífið í Handverks- og hússtjórnarskólanum í þættinum Um land allt á Stöð 2 í kvöld.

Bryndís Fiona Ford, skólameistari Handverks- og hússtjórnarskólans á Hallormsstað.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×