Innlent

LÖKE lokað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gunnar Scheving Thorsteinsson.
Gunnar Scheving Thorsteinsson. vísir/valli
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að þinghald í LÖKE-málinu svokallaða verði lokað. Fyrirtaka í málinu fór fram í dag og mun aðalmeðferð fara fram 11. mars næstkomandi. Tíu vitni verða kölluð fyrir, fimm af hálfu verjanda og fimm af hálfu ákæruvaldsins.

Ríkissaksóknari höfðar málið á hendur Gunnari Scheving Thorsteinssyni lögreglumanni sem ákærður er fyrir tvö brot í opinberu starfi, meðal annars fyrir að fletta persónulegum upplýsingum um rúmlega fjörutíu konur. 

Verjandi mannsins krafðist þess að málið yrði lokað en var því upphaflega mótmælt af hálfu ákæruvaldsins. Var það að lokum ákvörðun beggja aðila að þinghald yrði lokað þar sem óhjákvæmilegt væri að nefna konurnar á nafn og að um persónulegar upplýsingar væri að ræða. Hagsmuna þeirra verði að gæta.

Ákæruliðirnir eru tveir. Annars vegar er Gunnari gefið að sök að hafa á tímabilinu 7. október 2007 til 16. nóvember 2013 flett upp nöfnum 41 konu í málaskrárkerfi lögreglunnar, LÖKE, án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hans. Þá er hann hins vegar sakaður um að hafa mánudaginn 20.ágúst 2013 sent tölvuskeyti á Facebook með upplýsingum sem leynt áttu að fara. Gunnar er sagður hafa sent nafn og lýsingu á þrettán ára dreng sem hann hafði afskipti af í starfi sínu sem lögreglumaður, auk upplýsinga um ástæðu afskiptanna. Gunnar neitar sök í báðum liðum ákærunnar.

Upphaflega var hann ákærður fyrir að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna en var þeim fækkað um fjórar þegar málið var tekið fyrir í ágúst síðastliðnum. Skýrist það af því að nánari rannsókn lögreglu hafi leitt það í ljós að þær hafi verið tengdar málum sem voru á könnu lögreglumannsins.


Tengdar fréttir

Lögreglumaður, lögmaður og símamaður handteknir

Þrír eru til rannsóknar grunaðir um að hafa haft undir höndum viðkvæm trúnaðargögn. Gögnin komu meðal annars úr málaskrá lögreglu og frá gagnasafni Nova. Starfsmanni Nova hefur verið sagt upp vegna málsins.

Segir umfjöllun fjölmiðla byggja á ósannindum

Ríkissaksóknari hefur birt lögreglumanninum í LÖKE-málinu svokallaða, Gunnari Scheving Thorsteinssyni, ákæru fyrir tvö meint brot í opinberu starfi. Hann er sakaður um að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í upplýsingakerfi lögregunnar, ásamt því að hafa sent félaga sínum upplýsingar um þrettán ára gamlan dreng sem hann hafði afskipti af í starfi sínu sem lögreglumaður.

Kröfu um frávísun í LÖKE-málinu hafnað

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði frá frávísunarkröfu verjenda lögreglumannsins sem sakaður er um að hafa flett upp nöfnum 41 konu í málaskrárkerfi lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×