Innlent

„Óboðleg staða fyrir nemendur“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
"Við einfaldlega krefjumst þess af samningsaðilum að þeir sýni ábyrgð í þessari stöðu, hafi hag nemenda í huga og fundi daglega framvegis,“ segir Ísak Rúnarsson, formaður SHÍ.
"Við einfaldlega krefjumst þess af samningsaðilum að þeir sýni ábyrgð í þessari stöðu, hafi hag nemenda í huga og fundi daglega framvegis,“ segir Ísak Rúnarsson, formaður SHÍ. Vísir/GVA
„Þetta er náttúrulega óboðleg staða fyrir nemendur að það sé verið að boða til verkfalls annað próftímabilið í röð. Við trúum því ekki upp á stjórnvöld að þau láti komi til þessara aftur,“ segir Ísak Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, aðspurður um verkfall prófessora við ríkisháskóla sem boðað hefur verið til þann 1. desember.

Ísak vísar til þess að síðasta vetur boðaði Félag háskólakennara til verkfalls í miðjum vorprófum en þá var samið á síðustu stundu og verkfalli afstýrt.

„Það er auðvitað mikil ókyrrð í nemendum. Þetta hefur áhrif á námið, þeir vita  ekki hvort eða hvenær verður prófað úr námskeiðum og svo verða námslán ekki greidd út á réttum tíma fyrir stóran hluta nemenda ef að til verkfalls kemur,“ segir Ísak.

Hann segir að ekki hafi verið samþykkt að veita neinar undanþágur vegna námslána en að Stúdentaráð muni að sjálfsögðu þrýsta á um að það verði gert ef að verkfall verður.

„Við einfaldlega krefjumst þess af samningsaðilum að þeir sýni ábyrgð í þessari stöðu, hafi hag nemenda í huga og fundi daglega framvegis. Það er auðvitað ekki mikill tími til stefnu.“

Uppfært k. 13.48: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var sagt frá því að Félag háskólakennara hefði boðað til verkfalls í jólaprófum sl. vetur. Hið rétta er að félagið boðaði til verkfalls í vorprófunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×