Innlent

Opið á B5 um helgina þrátt fyrir bruna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Unnið við hreingerningar á B5 í morgun.
Unnið við hreingerningar á B5 í morgun. Vísir/GVA
Björn Jakobsson, eigandi skemmtistaðarins B5 í Bankastræti, segir skemmdir á staðnum miklu minni en hann átti von á eftir fyrstu upplýsingar af brunanum í gærkvöldi.

Mikill eldur kom upp á veitingastaðnum á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Kviknaði í út frá grilli á veitingastaðnum Búllunni sem rekur útibú á staðnum yfir daginn. Þorvaldur Geirsson, yfirvarðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sagði í viðtali við fréttastofu í gærkvöldi að skemmdir vegna bruna hefðu verið litlar en öllu meiri vegna sóts og reyks.

Sjá einnig: Gestum Lofts boðið í drykki á Prikinu

„Þetta lítur miklu betur út núna en það gerði miðað við fyrstu tilkynningar,“ segir Björn Jakobsson, eigandi B5, í samtali við Vísi. Björn mætti á vettvang í gærkvöldi og var sömuleiðis mættur í morgun ásamt fleirum í tiltekt.

„Það er fyrir öllu að engin slys urðu á fólki. Nú vinnum við á fullu til að geta opnað staðinn um helgina,“ segir Björn. Skemmtistaðurinn er einn sá vinsælasti í íslensku skemmtanalífi og hefur verið í töluverðan tíma.

„Það er aldrei skemmtilegt að lenda í þessu og vonandi gerist það aldrei. Það mikilvægasta er að allir séu heilir. Annað er bætanlegt,“ segir Björn. Klárt mál sé að staðurinn verði opinn um helgina.

„Við ætlum að opna um helgina og allir verða glaðir og kátir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×