Innlent

Gestum Lofts boðið í heita drykki á Prikinu

Bjarki Ármannsson skrifar
Það er gott að eiga góða granna, sérstaklega þegar rýma þarf heilt gistiheimili.
Það er gott að eiga góða granna, sérstaklega þegar rýma þarf heilt gistiheimili. Vísir/Þorgeir Ólafsson/Anton
Rýma þurfti farfuglaheimilið Loft við Bankastræti sjö vegna brunans á skemmtistaðnum B5 í kvöld. Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Lofts, segir starfsfólk sitt hafa brugðist rétt við og að vel hafi tekist að rýma staðinn.

„Kerfið okkar fer af stað og á fimm mínútum er búið að koma öllum út, bæði gestum á hostelinu og gestum uppi á kaffihúsi,“ segir Sigríður, en 33 gestir eru skráðir á Loft í nótt og veitingastaðurinn á efstu hæð var einnig þéttsetinn . „Það harka sér allir út og bíða eftir að vita meira. Sumir voru frekar illa klæddir, höfðu bara hlaupið út á peysunni.“

Það kom þó ekki að mikilli sök, því ferðalangarnir voru ekki lengi látnir dúsa úti í kuldanum.

„Við eigum svo góða nágranna hér á Prikinu,“ segir Sigríður. „Ég samdi við þá um að hleypa öllum inn í heita drykki og að fylgjast með því sem var að gerast. Það var ekkert mál.“

Sigríður var stödd á Prikinu þegar Vísir náði af henni tali en þá var hún við það að segja gestunum að þeir gætu snúið aftur á Loft. Engan reyk lagði inn á gistiheimilið og hægt verður að sofa þar í kvöld.

„Fólk tekur þessu ótrúlega vel. Við erum bara svo fegin að ekki fór illa. Ég var komin með plan B í huganum, hvort ég þyrfti að ferja fólk á hin farfuglaheimilin. En sem betur fer kom ekki til þess.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×