Fótbolti

HM í fótbolta 2022 í samkeppni við ÓL 2022?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þjóðverjar urðu heimsmeistarar í fótbolta síðasta sumar.
Þjóðverjar urðu heimsmeistarar í fótbolta síðasta sumar. Vísir/Getty
Áhrifamenn í fótboltaheiminum mæla með því að HM í Katar árið 2022 fari fram í janúar og febrúar en ekki yfir sumartímann þegar hitinn er mikill í Katar.

Þessi niðurstaða fundar í höfuðstöðvum FIFA í Zürich í dag mælir með því að HM í fótbolta fari því í beina samkeppni við Vetrarólympíuleikana sem eiga að fara fram á sama tíma.

Endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin þrátt fyrir þessa niðurstöðu fundarins en það má búast við viðbrögðum og mótmælum frá Alþjóðaólympíunefndinni. Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur hingað til verið harður á því að HM fari ekki í samkeppni við önnur stór íþróttamót.

FIFA er þó á því að HM geti ekki farið fram í júní eða júlí enda er hitastigið í kringum 50 gráðurnar í Katar á þeim tíma.

Jerome Valcke, framkvæmdastjóri FIFA, talaði um það að líklegast stæði valið á milli janúar og febrúar 2022 annarsvegar og nóvember og desember 2022 hinsvegar en toppklúbbar heimsins lögðu síðan til að spilaði yrði í maí 2022.

Vetrarólympíuleikarnir árið 2022 fara annaðhvort fram í Almaty í Kasakstan eða í Peking í Kína. Það er ekki búist að festa dagsetningu fyrir leikana en síðustu leikar í Sotsjí fóru fram 7. til 23. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×