Innlent

Vilja Ólafíu og Sigurð hlið við hlið sem varaforseta ASÍ

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sigurður Bessason og Ólafía B. Rafnsdóttir.
Sigurður Bessason og Ólafía B. Rafnsdóttir. Vísir
Samþykkt var af formönnum aðildarfélaga ASÍ í gær að leggja fram breytingatillögu þess efnis að tveir varaforsetar verði í stjórn ASÍ. Tillagan verður lögð fram á þingi ASÍ aðra helgi.

Uppstillingarnefnd hafði samband við þau Ólafíu B. Rafnsdóttur, formann VR, og Sigurð Bessason, formann Eflingar, sem svöruðu kallinu og hyggjast bjóða sig fram. Sitjandi varaforseti er Signý Jóhannesdóttir en hún var kjörin varaforseti  árið 2010 og endurkjörin árið 2012. Hún hefur gefið út að hún ætli að láta af störfum.

Ólafía greindi þó frá því í  útvarpsþættinum Sprengisandi í ágúst síðastliðnum að hún hygðist ekki bjóða sig fram. Frekar vildi hún beina kröftum sínum að starfi sínu hjá VR og sagðist ætla að sækjast eftir endurkjöri sem formaður VR.

„Leitað var til mín og skorað á mig að endurskoða þessa hugmynd með tilliti til þess að VR er stærsta stéttarfélag innan ASÍ en ákvörðunin byggir líka á því að breikka forystu ASÍ. En það veltur allt á þingsályktunartillögunni sem lögð verður fram á þingi um næstu helgi,“ segir Ólafía í samtali við Vísi.

Sigurður Bessason hefur sömu sögu að segja og segir nauðsynlegt að efla forystu ASÍ enn frekar.

„Það má segja að tveir varaforsetar séu hefð innan Alþýðusambandsins til lengri tíma litið,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar, og vísar til þess að áður fyrr gegndu tveir embættinu.

Þingið fer fram um aðra helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×