Innlent

Álftnesingar ósáttir með umferðarteppu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Langar raðir hafa myndast undanfarna daga.
Langar raðir hafa myndast undanfarna daga.
Fjöldi íbúa á Álftanesi er orðinn þreyttur á töfum á umferð vegna framkvæmda við Álftansveg. Síðan í haust hafa framkvæmdir við veginn staðið yfir. Í gærmorgun var byrjað að skipta um slitlag á veginum, þar sem til stendur að nýr Álftanesvegur verði lagður í sama vegstæði og sá gamli var í.

Þegar byrjað var að skipta um slitlag var umferðaljósum komið upp umferðarljósum til bráðabirgða nálægt gömlu bæjarmörkum Álftaness og Garðabæjar, áður en sveitarfélögin voru sameinuð. Aðeins var hægt að aka í eina átt í einu og er tilgangur ljósanna að stýra umferðinni; úr hvaða akstursátt má aka hverju sinni. Í gærmorgun myndaðist löng röð af bílum sem ekið var af nesinu.

Mikill munur var á fjölda bíla sem var ýmist ekið af nesinu og þeirra sem ekið var út á Álftanes. Eftir nokkurn tíma ákváðu starfsmenn sem vinna við framkvæmdir að handstýra ljósunum, til þess að létta á röðinni. Að sögn íbúa Álftaness rann umferðin mun betur í morgun en í gærmorgun, en þá virðist starfsmönnum sem höfðu það verkefni að huga að því að umferðin gengi vel fyrir sig hafa verið fjölgað.

Einhverjir íbúar Álftaness hafa kvartað til Vegagerðarinnar yfir því að hafa ekki fengið nægar upplýsingar um framkvæmdirnar og röskun á umferðinni. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, viðurkennir að það hefði mátt standa betur að kynningarmálum; að íbúar hefðu mátt verða betur upplýstir.

Hér má sjá kort af hluta Álftanesvegarins. Rauðu punktarnir tákna staðsetningu umferðaljósanna.Vísir/Loftmyndir
Deilur við landeigendur hjálpa ekki til

Rætt hefur verið um að hugsanlega hafi landeigendur sem eiga land í grennd við veginn haft áhrif á vegaframkvæmdir og gert þeim sem standa að framkvæmdum erfiðara um vik að beina umferð annað. 

Þar hafa landeigendur í Selskarði verið nefndir, en þeir hafa meðal annars kært mat á umhverfisáhrifum vegarins til úrskurðarnefndar Umhverfisráðuneytisins. Þegar samþykkt var að leggja nýjan veg þurfti Vegagerðin sérstaklega að taka fram að notast yrði við sömu veglínu í gegnum land Selskarðs. 

Hafa þessar deilur haft áhrif á vegaframkvæmdir?

„Ég veit ekki hvað skal segja um það. En það hjálpar allavega ekki til. Það auðveldar ekki málið,“ svarar G. Pétur.

Hér má sjö röðina við önnur umferðarljósin.
Röskun frá því í haust

Talsverð röskun hefur verið á umferð um Álftanesveg frá því fyrr í haust. Þá var hluti akreinarinnar fyrir umferð sem fer frá nesinu fjarlægður á sama tíma og ljósastaurar voru óvirkir. Þegar tók að rökkva gat orðið ansi varasamt að keyra Álftanesveginn, með óvirka ljósastura og minni akrein frá nesinu.

Athygli vekur að um kílómetra suðaustan við þessi umferðarljós er afleggjari sem liggur af veginum og upp í Garðarholt. Ef umferð væri beint inn á þennan veg væri hægt að komast aftur inn á Álftanesveg með því að aka í kringum Garðarholtið og koma niður Garðarholtsveg.

G. Pétur Matthíasson segist ekki getað svarað af hverju umferðinni er ekki beint þessa leið. „Þessi möguleiki hefur eflaust verið skoðaður. Menn forðast það að skapa umferðarteppu,“ útskýrir hann

Til stendur að ljúka þessum kafla framkvæmdanna – sem hafa þessi áhrif á umferðina – á næstu tíu dögum, að sögn upplýsingafulltrúans.

Guðmundur G. Gunnarsson var oddviti sveitastjórnar Álftaness um árabil auk þess sem hann gegndi stöðu bæjarstjóra.
Minnti á tímann fyrir árið 1991

Guðmundur G. Gunnarsson var um árabil Oddviti hreppsnefndar Bessastaðahrepps og síðar bæjarstjóri Álftaness auk þess sem hann var í tuttugu ár framkvæmdastjóri verktakafyrirtækja við gatnagerð, vegagerð og fleira. Hann er búsettur á nesinu og segir íbúa vera orðna ansi þreytta. 

„Þetta þarf að ganga ansi vel ef þeir ætla að klára þetta á næstu tíu dögum,“ segir hann. Guðmundur segir að það hafi ástandið í haust, þegar ljósastaurarnir voru óvirkir hafi minnt hann tímann fyrir árið 1991, þegar ljósastaurar voru settir upp við Álftanesveg. 

Guðmundur segir að í gærmorgun hafi margir verið orðnir ansi óþreyjufullir í röðinni sem myndaðist við umferðarljósin sem notuð eru til bráðabirgða við gömlu bæjarmörkin. Guðmundur segir að svo virðist sem einhverjir hafi orðið pirraðir og farið yfir á rauðu ljósi, þegar rauða ljósið logaði á umferð sem var að fara af nesinu. En eftir að starfsmenn við framkvæmdirnar hafi byrjað að handsýra ljósunum hafi umferðin gengið betur fyrir sig.

Líflegar umræður á Facebook

Á Facebook-síðu íbúa á Álftanesi má sjá líflegar umræður um framkvæmdirnar. Þar kvarta sumir íbúanna yfir því að hafa lítið fengið að vita um framkvæmdirnar og í gær mátti sjá aðra kvarta yfir því hvernig umferðinni var stýrt, eða öllu heldur skort á stýringu. 

Á síðunni má einnig sjá innlegg þeirra sem hvetja aðra að sýna þolinmæði. Ljóst er að skiptar skoðanir eru á meðal íbúa Álftaness með þessar framkvæmdir. Málið hefur einnig verið rætt á vinnustöðum á nesinu. Sumir ökumenn kvarta sérstaklega yfir þrengri akreinum en ella. 

En eins og Guðmundur, fyrrum bæjarstjóri, segir: „Þetta er töff aðgerð, maður hefur skilning á því og verktakarnir eru ekkert í öfundsverðri aðstöðu, því umferðarþunginn hefur áhrif á framkvæmdir. Maður vonar að þeim takist að klára þetta á tilætluðum tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×