Innlent

Sprauta í hanskahólfinu en það versta var lyktin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Það versta var lyktin í bílnum,“ segir Lena Margrét Aradóttir.
"Það versta var lyktin í bílnum,“ segir Lena Margrét Aradóttir.
Lena Margrét Aradóttir, byggingafræðingur sem komin er rúmar 39 vikur á leið, varð fyrir því óláni á dögunum að fjölskyldubílnum var stolið. Bíllinn fannst fyrr í vikunni en það voru þó ekki ekki gleðitíðindin ein og sér.

„Það versta var lyktin í bílnum,“ segir Lena Margrét í samtali við Vísi. Ógæfumaður hafi verið stöðvaður á rúntinum en svo virðist sem hann hafi búið í bílnum síðan honum var stolið.

„Hann sagðist reyndar hafa fengið bílinn hjá vini sínum,“ segir Lena en bíllinn,  hvítur Chevrolet Lacetti, hafði greinilega fengið á sig nokkur högg.

„Það var búið að klessa hann allan. Það var eiginlega bara allt að honum,“ segir Lena Margrét. Í hanskahólfinu fannst svo sprauta og fengu Lena og fjölskylda þau ráð að vera ekki að þreyfa mikið í bílnum eftir týndum munum.

Lena Margrét segir að sem betur fer hafi TM sýnt fjölskyldunni góðan skilning. Vera má að hægt hefði verið að gera bílinn gangfæran en samþykkt hafi verið að meta hann ónýtan.

„Ég hafði litla lyst á að setja börnin mín í þennan bíl. Þau hjá TM skildu það vel.“

Lena minnir bílaeigendur á mikilvægi þess að læsa bílum sínum. Það sé lykilatriði en komi auðvitað ekki í veg fyrir bílaþjófnað. Í þeirra tilfelli var bílhurðin spennt upp. Hún segir fjölskylduna leita að nýjum bíl og mögulega sé hann fundinn. Hún grínast með að vonandi bíði barnið í nokkra daga svo fjölskyldan geti farið á eigin bíl til og frá fæðingardeildinni þegar að stóru stundinni kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×