Innlent

„Það er sko búið að kjósa um stjórnarskrána“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá kosningum um tillögur stjórnlagaráðs árið 2012.
Frá kosningum um tillögur stjórnlagaráðs árið 2012. Vísir/Pjetur
Hátt í 100 umsagnir bárust til stjórnarskrárnefndar vegna fyrstu áfangaskýrslu nefndarinnar sem birt var í júní síðastliðnum. Öllum var frjálst að senda inn athugasemdir vegna skýrslunnar til 1. október sl. og eru þær birtar á vef forsætisráðuneytisins.

Margar athugasemdanna snúa að því að virða skuli þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram þann 20. október 2012. Þá samþykktu 67% þeirra sem tóku afstöðu að tillaga að nýrri stjórnarskrá, sem Stjórnlagaráð lagði fram á sínum tíma, skyldi lögð til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Kleópatra Mjöll Heiðudóttir segir til dæmis í sinni athugasemd:

„Hurru

Það er sko búið að kjósa um stjórnarskrána

Held þið séuð eitthvað að ruglast en nó wörrís það kemur fyrir besta fólk“

Þá vill Pétur V. Maack Pétursson að „hin falska stjórnarskrárnefnd“ segi af sér:

„Ég sem kjósandi og borgari hafna því að þessi svokallaða stjórnarskrárnefnd sé að fjalla um þetta smáræði sem á að bjóða fólki.

Ég tók þátt í og kaus stjórnlagaráð og í framhaldi af því greiddi ég atkvæði um tillögurnar ásamt 70% annarra kosningabærra manna sem villdu nýja stjórnarskrá. Því geri ég þá kröfu að hin falska stjórnarskrárnefnd sem nú var skipuð segi af sér og unnið verði  í anda Stjórnlagaráðs.“

Forsætisráðherra skipaði nefndina í nóvember í fyrra í samræmi við  samkomulag allra þingflokka. Nefndin á meðal annars að hafa hliðsjón af vinnu undanfarinna ára, m.a. tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og starfi þeirrar stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005-2007.

Stefnt er að því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo að hægt sé að samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskránni á yfirstandandi kjörtímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×