Innlent

Jólatónleikar Fíladelfíu teknir af dagskrá RÚV: „Ég er aðallega leiður fyrir hönd þjóðarinnar“

Bjarki Ármannsson skrifar
Óskar Einarsson, tónlistarstjóri Fíladelfíu.
Óskar Einarsson, tónlistarstjóri Fíladelfíu. Vísir/Vilhelm
„Svona er þetta bara. Ég er aðallega leiður fyrir hönd þjóðarinnar því það er gríðarlegt áhorf á þetta, um hundrað þúsund manns sem bíða eftir þessu á aðfangadagskvöld klukkan ellefu. Við höldum auðvitað tónleikana og söfnum en það hefði verið gaman að leyfa þjóðinni að njóta með.“

Þetta segir Óskar Einarsson, tónlistarstjóri Fíladelfíu-kirkjunnar í Reykjavík, en RÚV greindi honum fyrir tveimur vikum frá því að árlegir jólatónleikar safnaðarins verða teknir af dagskrá í ár. Í bréfinu sem Óskar fékk voru tvær ástæður nefndar fyrir þessari ákvörðun, annars vegar sú að útsending tónleikanna rúmist ekki innan fjárhagsáætlunar RÚV og hins vegar að ekki sé hægt að réttlæta það að sami hópurinn komist að ár eftir ár.

„Sem er kannski alveg hægt að skilja, en þetta er bara orðið að hefð og landsmönnum farið að þykja vænt um þetta,“ segir Óskar, en tónleikarnir hafa verið sýndir á RÚV ár hvert frá því árið 2001. Hann gefur einnig lítið fyrir það að málið snúist um kostnað við að sýna tónleikana.

„RÚV hefur fengið þetta á silfurfati, þeir hafa ekkert þurft að borga fyrir þetta. Þeir eru bara með sitt fólk í vinnu sem kemur og tekur upp. Við sjáum um hljóðvinnslu og borgum með þessu, það hefur verið allt að ein og hálf milljón sem við borgum með. Þannig að þetta snýst ekkert um kostnað.“

Ákvörðun RÚV um að taka morgunbæn af dagskrá var harðlega gagnrýnd og á endanum tekin til baka.Vísir/GVA
Áður deilt um útsendingu

Það hefur áður komið til tals að taka tónleikana af dagskrá RÚV. Árið 2009 fór af stað áskorun á Facebook um hætta við að sýna tónleikana eftir að Friðrik Ómar Hjörleifsson söngvari hélt því fram að hann hefði ekki fengið að koma fram í Fíladelfíu vegna þess að hann er samkynhneigður.

„Það hafa stundum verið gagnrýnisraddir um þetta en þáverandi útvarpsstjóri, Páll Magnússon, vildi alls ekki hrófla við þessu,“ segir Óskar. „Þetta er líka gott málefni, það er verið að safna fyrir þeim sem minna mega sín og það hafa safnast á þriðja tug milljóna undanfarin ár.“

Óskar segir að fulltrúar safnaðarins hafi farið á fund RÚV í maí eftir að Magnús Geir Þórðarson tók við af Pál Magnússyni sem útvarpsstjóri. Þeir hafi ekki reiknað með öðru en að tónleikunum yrði haldið á dagskrá. Hann segist þó hafa fengið „óþægilega tilfinningu“ í haust þegar ekkert svar hafði borist og tilkynnt var um áform RÚV að taka liðina Morgunbæn og Orð dagsins af dagskrá Rásar eitt.

„Þá hélt að þeir ætluðu kannski að ganga ennþá lengra og taka út ennþá meira af trúarlegu efni,“ segir Óskar. „Þó þetta séu bara jólatónleikar.“

Gætu snúið aftur á dagskrá

Svar með ákvörðun RÚV barst svo ekki fyrr en í lok september. Óskar segir að ekki sé útilokað að tónleikunum verði sjónvarpað aftur næstu ár. Í ár standi þó til að Fíladelfía gefi tónleikana út á DVD-disk fyrst þeim verði ekki sjónvarpað.

„Þeir gáfu það upp í bréfinu að þeir vildu gjarnan skoða aðkomu að þessu síðar,“ segir Óskar. „Við útilokum það ekki. Þannig það verður bara að koma í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×