Innlent

Vann 53 milljónir en kláraði að elda súpuna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Báðum vinningshöfunum hefur verið boðin fjármálaráðgjöf.
Báðum vinningshöfunum hefur verið boðin fjármálaráðgjöf.
Búið er að ná í báða vinningshafana frá því á laugardagskvöld, en báðir vinningsmiðarnir voru keyptir á lotto.is og því hæg heimatökin að hafa uppi á eigendum þeirra. Potturinn var risavaxinn og hvor um sig vann rúmlega 53 milljónir.

Annar vinningshafinn er ungur maður búsettur í Reykjavík ásamt konu og börnum. Hann sagði það mjög skrýtna tilfinningu að vinna svona háa upphæð í Lottóinu en öryggistilfinningin væri virkilega góð. Þau hjónin náðu sér bæði í miða, hann á netinu og hún á sölustað.

Ekkert kom á miðann hennar en hann uppgötvaði að tölur kvöldsins hefðu komið á miðann sem keyptur var á netinu. Hann hélt ró sinni, eldaði súpu og eftir að fjölskyldan hafði lokið við að snæða bað hann konuna sína að koma með sér að tölvunni. Frúin átti bágt með að trúa þessu en til að halda upp á þetta, þá fór hún og keypti sér nýja skó.

Hinn vinningshafinn býr úti á landi og var ekki búinn að skoða miðann sinn þegar starfsmenn Lottó hringdu í hann. Því komu tíðindin honum skemmtilega á óvart.

Báðum vinningshöfunum hefur verið boðin fjármálaráðgjöf en hún stendur öllum til boða sem vinna svona glæsilega Lottóvinninga að því er fram kemur á heimasíðu Lottó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×