Innlent

Flugumsjónarmenn boða til verkfalls í næstu viku

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VÍSIR/PJETUR
Félag Flugumsjónarmanna á Íslandi hefur boðað til verkfalls fimmtudaginn 11. september næstkomandi fyrir hönd félagsmanna sinna sem starfa hjá Icelandair.

Þetta staðfestir Valdimar Pétursson, formaður samninganefndar flugumsjónarmanna, í samtali við Vísi í dag.

Verkfallsboðunin kveður á um sex tímabundin verkföll. Þau eru:

11. september frá klukkan 07:00 til 19:00

14. september frá klukkan 07:00 til 19:00

18. september frá klukkan 07:00 til 19:00

20. september frá klukkan 07:00 til 19:00

25. september frá klukkan 07:00 til 07:00

28. september frá klukkan 07:00 til 07:00



Verkfallsboðunin var send inn á mánudag og að sögn Valdimars fara félagsmenn fram á svipaðar launahækkanir og öðrum stéttum hafa hlotnast í deilum sínum við flugfélagið það sem af er ári. Flugumsjónarmenn fara þannig fram á rúmlega tveggja prósenta launahækkun á launatöflu auk annarra bættra starfskjara.

Sem dæmi má nefna að samningurinn sem flugmenn Icelandair undirrituðu í maí, er gildir til 30. september næstkomandi, kveður á um átta prósenta launahækkun á ársgrundvelli, þegar öll fríðindi eru tekin í reikninginn.

Flugumsjónarmenn sinna margvíslegum verkefnum fyrir flugfélög. Þeir sjá til að mynda um alla leiðaútreikninga fyrir flug félagsins, reikna út eldsneytisþörf og skipuleggja flug vélanna. Þeir sækja einnig um lendingartíma, leyfi og undirbúa þannig allar flugferðir Icelandair.

Alls starfa níu flugumsjónarmenn hjá Icelandair.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×