Innlent

Götuverð LSD skammts 3.000 krónur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórarinn Tyrfingsson er ánægður með vinnu tollsins.
Þórarinn Tyrfingsson er ánægður með vinnu tollsins.
Þeir skammtar af LSD sem lagt hefur verið hald á það sem af er ári hafa komið í nokkrum mörgum póstsendingum. Samkvæmt upplýsingum frá embætti tollstjóra eru sendingarnar nokkuð stórar ef horft er til fjölda skammta í hverri sendingu.

Tollurinn hefur lagt hald á tæplega 8.000 skammta af LSD og afleiðum þess það sem af er ári, en það er meira en haldlagt hefur verið sl. 4 ár samtals. Afleiður LSD eru öðruvísi samsettar en sjálft LSD en hafa nákvæmlega sömu virkni.

„Umræðan um þessi efni og hversu hættuleg þau eru hefur ekki verið mikil upp á síðkastið. Þá rjúka tölurnar upp. Það er erfitt að meta það hvort að markaðurinn sé að stækka eða hvort framboðið sé að aukast, nema hvort tveggja sé. En við erum ánægðir með að hafa náð þessum skömmtum,“ segir Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, hefur ekki orðið var við að mikið magn af LSD sé í umferð.

„Það er í samræmi við seinustu ár en meira af efninu var í umferð á árunum fyrir hrun,“ segir Þórarinn. Hann bætir við að götuverð eins skammts af LSD sé um 3000 krónur. Hann segir verðið sambærilegt við eitt gramm af kannabis eða eina e-pillu. Samkvæmt því er heildarvirði þess sem tollurinn hefur lagt hald á tæpar 24 milljónir króna.

Þórarinn er sérstaklega ánægður með vinnu tollsins sem virðist hafa leitt af sér hversu lítið af efninu hefur verið í umferð. Aðspurður hvort að hið aukna magn innflutnings bendi til að eftirspurn eftir LSD hafi aukist segir Þórarinn, líkt og Kári, að erfitt sé að leggja mat á það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×