Innlent

Stuðningur við ESB-aðild eykst

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill meirihluti stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna er andsnúið aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Mikill meirihluti stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna er andsnúið aðild Íslands að Evrópusambandinu. V'isir/Getty
Stuðningur við ESB-aðild eykst samkvæmt nýtti könnun Capacent Gallup og gerð var fyrir Já Ísland. Af þeim sem tóku afstöðu svöruðu 45 prósent á þann veg að þau myndu líklega eða örugglega greiða atkvæði með aðild en tæp 55 prósent líklega eða örugglega á móti aðild.

Í frétt Já Ísland segir að stuðningsfólk ríkisstjórnarflokkanna sé andsnúið aðild að sambandinu. Segir að 92 prósent stuðningsfólks Framsóknar myndu líklega eða örugglega greiða atkvæði gegn aðild, en 83 prósent stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins.

89 prósent stuðningsfólks Samfylkingarinnar, 81 prósent stuðningsfólks Bjartrar framtíðar og 55 prósent stuðningsfólks bæði Vistri grænna og Pírata myndu hins vegar greiða atkvæði með aðild, ef kosið yrði um málið nú.

„Leita þarf mörg ár aftur í tímann til þess að sjá svo lítinn mun á stuðningsmönnum og andstæðingum aðildar,“segir í tilkynningunni.

Spurt var: Ef aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) yrði borin undir þjóðaratkvæði í dag, hvernig telur þú líklegast að þú myndir greiða atkvæði?

Könnunin var gerð dagana 29. júlí til 10. ágúst 2014 og var netkönnun meðal 1.500 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvöldum úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Þátttökuhlutfall var 54,6 prósent.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.